Franska lögreglan gerði húsleit á heimili Christine Lagarde, forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í París í dag. Húsleitin er liður í rannsókn lögreglu á afskiptum Lagarde af uppgjöri franska ríkisins við franska kaupsýslumanninni Bernarde Tapie árið 2008. Lagarde var á þeim tíma fjármálaráðherra í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy forseta Frakklands.

Lagarde er m.a. gefið að sök að hafa samþykkt 285 milljóna evra greiðslu til Tapie. Málið hefur verið lengi í rannsókn en það á rætur að rekja aftur til ársins 1993 þegar Tapie seldi íþróttavörufyrirtækið Adidas. Hann sakaði ríkisbankann Credit Lyonnais um að hafa svindlað á sér og krafðist bóta. Lagarde lagði deiluna í hendur gerðardóms árið 2007 sem komst að þeirri niðurstöðu ári síðar að Tapie skyldu greiddar skaðabætur. Íslandsvinurinn Eva Joly hefur m.a. sagt uppgjörið lykta af spillingu og sakað Sarkozy um að hafa fyrirskipað Lagarde að gera upp við Tapie.

Lagarde þvertekur fyrir allt slíkt og hafði Reuters-fréttastofan eftir lögfræðingi hennar í dag, að húsleitin muni hjálpa til við að leiða sannleikann í málinu í ljós og sanna sakleysi skjólstæðings síns.