Verulega hefur hægt á hækkunum íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Á síðastliðnum 6 mánuðum hækkaði íbúðaverð um 1,8% en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um rúm 13% 6 mánuðina þar áður.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár um vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Í nóvember lækkaði vísitalan um 0,73% frá fyrri mánuði og er þetta fyrsta lækkun sem orðið hefur á vísitölunni milli mánaða síðan í apríl 2015.

Athygli vekur að bæði verð á fjölbýli og sérbýli lækkaði milli mánaða frá október fram í nóvember. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,9% og verð á sérbýli um 0,15%. Leita þarf aftur til ársins 2013 til þess að sjá verð á bæði fjölbýli og sérbýli lækka milli mánaða, en það gerðist síðast í ágúst þess árs.

12 mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu er þó enn talsvert mikil eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Hún mælist nú 15% sem er svipuð og hækkunin var undir lok síðasta árs.

„Draga má þá ályktun að íbúðamarkaðurinn sé farinn að róast eftir þær miklu hækkanir sem voru í upphafi árs og vonir standa til að þróunin verði nú í auknum mæli í takt við undirliggjandi stærðir.“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs.