Verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði fjórða mánuðinn í röð í apríl síðastliðnum samkvæmt vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sem Þjóðskrá Íslands tekur saman og birti í gær. Í fréttum Greiningar Íslandsbanka segir að þannig hækkaði íbúðaverð um 0,7% að nafnvirði á milli mars og apríl síðastliðins og gildi vísitölunnar hafi ekki verið hærra síðan í október árið 2009.

Frá áramótum nemur hækkun vísitölunnar um 2,9% að nafnvirði en um 0,9% að raunvirði miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

Í fréttum Greiningar segir svo:

Skýrist af hækkunum á verði íbúða í fjölbýli Þessi hækkun á milli mánaða skýrist af hækkunum á verði íbúða í fjölbýli, en þær hækkuðu um 0,9% að nafnvirði nú í apríl frá fyrri mánuði. Á sama tíma hækkaði verð sérbýlis um einungis 0,1%. Frá áramótum talið hefur verð á íbúðum í fjölbýli hækkað um 4,1% á sama tíma og verð á sérbýlum hefur lækkað um 0,7%. Þrátt fyrir að miklar sveiflur hafi verið í verðmælingum á milli mánaða þá er þessi þróun í takti við það sem verið hefur undangengna 12 mánuði. Þannig hefur verð á íbúðum í fjölbýli hækkað um 5,4% frá því í apríl í fyrra á sama tímabili og verð á sérbýlum hefur lækkað um 6,4%.