Íbúðir í byggingu voru 7.937 um allt land í mars samkvæmt nýjustu íbúðatalningu HMS. Til samanburðar voru þær 8.791 í mars á síðasta ári og eru framkvæmdir því 9,3% færri en árið 2023.

Samkvæmt talningunni er uppbygging íbúða mest á höfuðborgarsvæðinu en þar eru 69,5% af öllum íbúðum sem eru í byggingu.

Íbúðum í byggingu fækkar hins vegar í flestum sveitarfélögum, en mest í Reykjavíkurborg þar sem þær voru 324 færri en í síðustu talningu, sem jafngildir 12,5% samdrætti. Í Hafnarfirði hefur íbúðum í byggingu fækkað um 115, eða um 7,2%.

Á Akureyri fjölgaði íbúðum hins vegar um 17,3% og í Mýrdalshreppi fjölgaði þeim einnig um 64%, eða um 16 íbúðum milli talninga.

Uppfylla aðeins 56% af íbúðaþörf

„Alls eru 1.880 íbúðir í framkvæmdum sem standa í stað á milli talninga. Slíkum íbúðum hefur fækkað á milli talninga, en í septembertalningu HMS árið 2023 voru þær 3.929 talsins og í marstalningu HMS sama ár voru þær 3.153 talsins. Hins vegar er fjöldi þeirra enn töluverður, sem bendir til þess að byggingaraðilar séu enn að halda að sér höndum í einhverjum verkefnum,“ segir í greiningu HMS.

HMS metur því að íbúðaþörf fyrir árin 2024 og 2025 nemi yfir 10 þúsund íbúðum, á meðan fullbúnum íbúðum muni aðeins fjölga um 5.788 talsins. Fjöldi íbúða sem stofnunin áætlar að komi á markað á þessu ári og því næsta mun því einungis fullnægja um 56 prósent af íbúðaþörf.