Iceland Express ætlar að hefja áætlunarflug til Kölnar-borgar í Þýskalandi í júní. Flogið verður tvisvar í viku á þriðjudögum og föstudögum. Köln er annar stærsti áætlunarflugvöllur lággjaldaflugfélaga í Þýskalandi en þau flytja þangað um 4,2 milljónir farþega á ári.

Fyrsta flugið Iceland Express verður þriðjudaginn 5. júní og síðasta flug sumarins hinn 31. ágúst. Flogið er frá Keflavík kl. 17:50 og lent í Köln klukkan 21:20, þaðan sem flogið er til baka til Keflavíkur kl. 00:30 þar sem lent er kl. 02:25.

Fram kemur í tiilkynningu frá Iceland Express að flugvöllurinn í Köln er vel tengdur við miðborgina en aðeins taki um 12 mínútur að fara með hraðlest frá flugvellinum inn í miðborgina. Þá henti flugvöllurinn vel til tengiflugs en þaðan er flogið á 115 áfangastaði víðs vegar um heiminn.

Haft er eftir Skarphéðni Berg Steinarssyni, forstjóra Iceland Express, í tilkynningunni að ánægjulegt sé að bæta Köln-Bonn við metnaðarfulla sumaráætlun félagsins og auðvelda þar með fleiri Þjóðverjum að heimsækja Ísland og auka um leið ferðamöguleika Íslendinga í Þýskalandi.