Icelandair mun breyta áherslum í flugi sínu vestur um haf á næsta ári. Reglulegt áætlunarflug hefst til Toronto í maí, en flugi verður hætt til Baltimore í vetur. Morgunflugi til Boston og New York, sem tekið var upp á síðasta sumri verður haldið áfram í sumar. Lítillega verður bætt við framboð til London á árinu. Flug til Baltimore mun hætta frá og með 13. janúar 2008, en flug til Toronto mun hefjast 2. maí 2008, samkvæmt því sem segir í tilkynningu vegna breytinganna.   Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Karli Ólafssyni forstjóra Icelandair: “Við erum í heild að bjóða upp á svipaða áætlun og á yfirstandandi ári, en gerum ákveðna breytingu í fluginu vestur um haf með því að færa okkur til Toronto í Kanada frá Baltimore. Við höfum vaxið hratt á undanförnum árum og munum á árinu 2008 gera minniháttar breytingar á áætluninni, leggjum áherslu á að þjóna íslenska markaðinum og ferðamannamarkaðinum til Íslands, og fínstillum leiðakerfi og framboð með áherslu á arðsemi.”   Toronto er langstærsta borgin í Kanada og helsta samgöngumiðastöð landsins. “Borgin verður án efa eftirsótt af Íslendingum, því hún er lifandi fjölmenningarborg sem gaman er að heimsækja. Hún gefur okkur einnig mikla möguleika til að sækja ferðamenn til landsins því borgin er samgöngumiðstöð og er miðpunktur í mjög þéttbýlu milljónasamfélagi. Við byrjuðum á síðasta ári flug til Halifax og leggjum því áherslu á uppbyggingu í Kanada um þessar mundir", segir Jón Karl. “við kveðjum jafnframt Baltimore eftir að hafa flogið milli borgarinnar og Íslands um langa hríð. Við höfum séð afkomu á leiðinni versna, einkum eftir að nokkur þúsund manna samfélag Bandaríkjamanna í herstöðinni á Keflavíkurflugvelli, hvarf af landi brott.”   Í tilkynningunni segir að lítillega verði aukið við áætlun til London á næsta ári og flogið þangað tvisvar á dag alla daga vikunnar, auk þess sem áfram verður flogið til Manchester og Glasgow í Bretlandi. Þá verður framboð til Kaupmannahafnar svipað og var á síðasta ári og flogið allt að fimm sinnum á dag til borgarinnar á næsta sumri, en fjórum sinnum á dag flesta daga.   Næsta vor mun Icelandair á ný fljúga frá Íslandi til Bandaríkjanna klukkan 10 að morgni, og býður upp á flug frá París og Frankfurt klukkan átta að morgni til Íslands. “Eins og flestir þekkja þá byggir leiðakerfið okkar á ákveðinni 24 klukkustunda hringrás þar sem flugvélar okkar fara flestar til Evrópu að morgni, koma til baka síðdegis og fara síðan vestur um haf og lenda snemma morguns hér á landi. Sú nýbreytni að bjóða upp á hina leiðina, þ.e. að fara frá Evrópu að morgni, áfram til Bandaríkjanna að morgni, koma frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu gafst vel á síðasta sumri og við munum halda þessu áfram,” segir Jón Karl í tilkynningunni að lokum.