Boeing 767 farþegaflugvél frá Icelandair mun á morgun fljúga til Sjanghæ í Kína til að sækja um 17 tonn af lækningavörum. Er um að ræða leiguflug á vegum Icelandair Cargo og Loftleiða í samstarfi við heilbrigðisaðila á Íslandi og DB Schenker.

Samkvæmt Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, mun vélin stoppa í Sjanghæ í 4 klukkustundur áður en haldið verður aftur af stað til Keflavíkur og má því gera ráð fyrir að vélin komi til landsins á föstudag ef engin vandamál koma upp. Alls verða 11 manns í áhöfn en þar af munu sex flugmenn skipta með sér að fljúga vélinni. Þá verða um borð þrír hlaðmenn auk tveggja flugvirkja. Þess má geta að Icelandair fékk undanþágu frá yfirvöldum til þess að hlaða frakt í farþegaflugvél.

Þrátt fyrir að Icelandair hafi í gegn um tíðina tekið að sér fljölmörg óhefðbundinn verkefni má gera ráð fyrir að um sé að ræða eitt lengsta samfellda flug í sögu félagsins. Sem dæmi má nefna að flugtíminn á milli London Sjanghæ er rúmlega 11 klukkustundir.

Þá má einnig geta þess að flugið á morgun er ekki eina óvenjulega verkefnið sem félög Icelandair samstæðunnar hafa tekið af sér vegna kórónuveirunnar því þann 20. mars sóttu Loftleiðir um 260 þjóðverja sem staddir voru í skemmtiferðasiglingu úti fyrir ströndum Mexíkó sem lauk fyrr en áætlað var vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.