*

miðvikudagur, 27. október 2021
Viðtal, Innlent 23. mars 2020 16:38

Icelandair lækkaði um fimmtung

Öll félög nema ISI lækkuðu á rauðum mánudegi í Kauphöllinni í dag, og fór Úrvalsvísitalan niður um nærri 6%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi Icelandair lækkaði um 22,03% í viðskiptum dagsins, sem námu 139,7 milljónum króna, en það voru þriðju mestu viðskiptin með bréf í einu félagi, en gengi þess er nú komið í 3,08 krónur.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun greip félagið til uppsagna á 240 manns og stefnir það að því að lækka starfshlutfall yfir 90% af starfsmanna sinna. Um helgina bárust fréttir af því að fjármála- og efnahagsráðherra sagði að stjórnvöld myndu vart veita Icelandair ríkisstuðning nema hluthafar og lánveitendur sætti sig við eitthvað tjón.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Marel, eða um 6,48%, í langsamlega mestu viðskiptunum í dag, eða fyrir 300,3 milljónir króna, og enduðu bréfin í 491 krónum. Þriðja mesta lækkunin var á bréfum Festi, eða um 6,09%, niður í 108 krónur, í 51 milljóna króna viðskiptum. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf fasteignafélagsins Eikar, eða fyrir 168,1 milljón króna.

Meginlandsmyntirnar styrktust

Íslenska krónan styrktist gagnvart Bandaríkjadal, breska pundinu og japanska jeninu, en veiktist gagnvart meginlandsmyntunum meðal helstu viðskiptamynta landsins.

Þannig styrktist evran um 0,66%, upp í 151,0 krónur, danska krónan styrktist styrktist um 0,65%, up í 20,211 krónur, sænska krónan hækkaði um 0,07% en sú norska upp í 4,43%, upp í 12,414 krónu.

Breska sterlingspundið veiktist mest, eða um 2,16%, niður í 161,26 krónur, Bandaríkjadalur veiktist um 0,16%, niður í 140,34 krónur, og japanska jenið veiktist um 0,18%, niður í 1,26 krónur.

Stikkorð: Marel Kauphöll Icelandair Nasdaq