Icelandic Group hagnaðist um 61,9 milljónir evra, jafnvirði 10,3 milljarða króna, í fyrra. Til samanburða nam hagnaður fyrirtækisins um og yfir sex milljónum evra í tvö ár á undan.

Fram kemur í uppgjöri Icelandic að hagnaður félagsins í fyrra skýrist öðru fremur af sölu eigna í Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum og í Kína. Eftir stendur viðamikil verksmiðjustarfsemi í Bretlandi auk framleiðslu- og þjónustustarfsemi hér, í Noregi, Spáni og í Japan.

Þá kemur fram í uppgjörinu að heildartekjur af áframhaldandi starfsemi hafi numið tæpum 525 milljónum evra eða 87,6 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 178 milljónir evra, eða 29,7 milljarðar króna. EBITDA eða rekstrarhagnaður námu 2,2 miljlörðum króna samanborið við 2,6 milljarða ári fyrr. Eiginfjárhlutfallið var 48%. um áramótin. Sjóðsstaða félagsins er sterk en fyrirtækið á 109,3 milljónir evra í reiðufé og 38,5 milljónir evra á bundum innstæðum, alls 147,8 milljónir evra eða 24,7 milljarða króna.

Alls starfa um 1.600 starfsmenn hjá fyrirtækinu eftir breytingar.

Icelandic Group er í eigu Framtakssjóðs Íslands. Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group, segir í uppgjörinu: „Það er ljóst að staða Icelandic Group hefur gjörbreyst á árinu. Sala á hluta af starfsemi félagsins tókst mjög vel og fjárhagsstaða félagsins er nú afar sterk en félagið var mjög skuldsett fyrir þessar sölur. Einnig hefur mikil vinna verið lögð í að efla þann rekstur sem tilheyrir áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins og auka rekstrarhagnað. Icelandic Group hefur sterka stöðu á mörkuðum, á þekkt og öflug vörumerki og mikil þekking er innan fyrirtækisins á allri virðiskeðju sjávarútvegs. Það eru því allar forsendur til að vera bjartsýn á framtíð félagsins.“