Icelandic USA, dótturfyrirtæki Icelandic Group í Bandaríkjunum, hefur gengið frá sölu á frystigeymslu sinni í nágrenni Boston. Söluverð er um 7 milljónir EUR eða um 660 milljónir króna og nemur söluhagnaður um 3 milljónum EUR eða um 280 milljónum króna.

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að salan er liður í endurskipulagningu á birgðahaldi Icelandic USA. Frá sameiningu Icelandic USA og Samband of Iceland hefur félagið rekið fjórar birgðastöðvar. Frá og með 10. júlí nk. verða allar birgðir félagsins í frystigeymslu í Newport News við hlið verksmiðju félagsins þar. Með þessu næst umtalsverð hagræðing í geymslu og dreifingu á vörum og er liður í stefnu félagsins að lækka birgðir og kostnað við dreifingu.