Þrátt fyrir aukna skuldastöðu vegna Icesave hafa lánshæfisstofnanir litið það jákvæðari augum að skrifað sé undir Icesave-samninginn en að honum yrði hafnað.

Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu IFS Greiningar um efnahagsmál. IFS segir jafnframt að einnig fáist aukinn trúverðugleiki út á nýfengna lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig hafi innlendum fyrirtækjum reynst nær ómögulegt að sækja erlent fjármagn ef ekki einu sinni AGS hefði viljað veita íslenska ríkinu lán.

„Við teljum því að þrátt fyrir neikvæð áhrif af Icesave-samningnum, þá muni aukið traust og trúverðugleiki Íslands út á við vega á móti neikvæðum áhrifum,“ segir í skýrslu IFS.

Í gengisspá skýrslunnar kemur fram að IFS gerir ráð fyrir að meðalgengi krónu verði 220 stig árið 2010 eða lítið eitt sterkara en það er nú, um 5 til 7%.. Há erlend skuldastaða og minni trúverðugleiki íslenskra fjárfesta á erlendum lánsfjármörkuðum muni hafa áhrif á gengisþróun.

„Sökum verri lánskjara erlendis munu mörg fyrirtæki og sveitarfélög leitast við að greiða niður erlend lán,“ segir í skýrslu IFS.

„Það mun einnig vera eitt af forgangsmálum í ríkisfjármálum næstu ára að draga úr erlendri skuldsetningu. Framangreindir þættir munu draga úr getu krónunnar til styrkingar. Afborganir erlendra lána munu krefjast afgangs af vöruskiptum en til að svo megi verða þarf samkeppnishæfni útflutningsfyrirtækja að vera góð og gengi krónu lágt.“