Viðskiptatímaritið CNBC European Business hefur í viðamikilli úttekt sem birt er í marshefti tímaritsins útnefnt íslenska fyrirtækið Industria sem eitt af 50 framsæknustu fyrirtækjum í Evrópu.

Í umsögn dómnefndar er Industria sagt ?geta reynst eitt mikilvægasta fyrirtækið í samruna sjónvarps og stafrænna miðla í Evrópu?, og hlýtur fyrirtækið útnefningu í flokki framsæknustu tæknifyrirtækja ásamt Skype Technologies, Tiscali, Aresa og Icera. Umsjón með matinu hafði alþjóða ráðgjafarfyrirtækið PRTM, en meðal þeirra þátta sem litið var til við matið var umsögn 60 annarra fyrirtækja víðs vegar um álfuna.


Meðal þeirra fyrirtækja sem hlutu útnefningu CNBC European Business í öðrum flokkum má nefna Adidas, British Sky Broadcasting, BMW, Rolls Royce, Vodafone og Virgin Atlantic, svo fá ein séu nefnd.


Í umsögn tímaritsins segir: ?Metnað Industria má meðal annars sjá í staðsetningu skrifstofa þess, í Bretlandi, Írlandi, Búlgaríu og Kína. Þetta íslenska fyrirtæki sérhæfir sig í hugbúnaði til tengingar breiðbandsneta og þráðlausra neta, og lausnir þess fyrir stafrænt sjónvarp og aðra þjónustu ? sem ganga undir nafninu Zignal ? hafa vakið mikla eftirtekt.?


?Þessi viðurkenning kom okkur þægilega á óvart?, segir Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri, í tilkynningu sem félagið hefur sent út.

?Framsækni og nýsköpun Industria hefur ekki einungis birst í vöruþróun okkar heldur einnig í innri ferlum og öðrum þáttum sem gerir okkur kleift að svara kröfum markaðarins hraðar. Það er ánægjulegt að sjá að heildarsýn Industria á samruna afþreyingar- og fjarskiptageirans er að vekja þá athygli sem raun ber vitni í úttekt breska ráðgjafarfyrirtækisins.?

Zignal-hugbúnaðurinn hefur nú verið á markaði á annað ár og á IPTV World Forum-sýningunni í London í byrjun þessa mánaðar sýndi Industria nýjustu lausnir sínar fyrir stafrænt sjónvarp, sem meðal annars innifela stuðning við sjónvarpsefni frá endanotendum, svo og háskerpusjónvarp segir í tilkynningunni.