Í viðtali við Ingibjörgu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra og hótelstjóra á Hótel Sögu, er lítillega minnst á virðisaukaskatt á gistiþjónustu sem nú stendur til að hækka umtalsvert. Blaðamaður gefur sér að Ingibjörg hafi svipaða skoðun á þeirri hækkun eins og aðrir í ferðaþjónustunni, en þó er ástæða til að spyrja hvaða áhrif hún telji að þessi hækkun hafi á rekstur hótelanna.

„Arðsemin myndi auðvitað minnka, hvort sem hluti af hækkuninni yrði settur út í verðlagninguna eða ekki, því hærri verð þýðir minni eftirspurn,“ segir Ingibjörg.

„Það er einfaldlega mjög slæmt ef af verður. Við erum að sjá mikla hækkun á mörgum kostnaðarliðum og við höfum ekki getað náð inn sambærilegri hækkun á okkar þjónustu. Þó svo að launin séu ekki há fyrir þá sem þiggja þau þá eru þau hár útgjaldaliður fyrir þjónustufyrirtæki sem þarf margt fólk í vinnu. Þó svo að margir birgjar hafi haldið að sér höndum þá kemur að því að þeir verða að setja hækkanir á sínum rekstrarútgjöldum inn í verðlagið. Við höfum séð dæmi um allt að 20% hækkun á aðföngum það sem af er þessu ári, aðallega í veitingadeildinni.“

Þá segir Ingibjörg að mikilvægt sé að huga að samkeppnishæfni Íslands á þeim stóra samkeppnismarkaði sem ferðaþjónustan í raun er.

„Þetta er mjög viðkvæmur markaður, samkeppnin er mjög hörð úti um allan heim,“ segir Ingibjörg.

„Við höfum verið svo lánsöm að Ísland hefur vakið athygli heimsbyggðarinnar, m.a. vegna ýmissa náttúruhamfara. En það fer einnig fram mikil markaðssetning erlendis og sem betur fer þykir landið spennandi og framandi staður til að heimsæja. Það hverfur hins vegar allt ef við getum ekki boðið gistingu á samkeppnishæfu verði við aðra áfangastaði. Við erum að keppa við marga spennandi staði, s.s. minni staði í Evrópu og spennandi staði í öðrum heimsálfum. Það eru margir staðir þar sem falleg náttúra er í boði og góð aðstaða á lægra verði. Einnig tel ég að svört atvinnustarfsemi myndi stóraukast með auknum álögum sem myndi þá enn frekar skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna sem hafa allt sitt á hreinu.“

Ingibjörg segir að ef fallið verði frá hugmyndum um skattahækkun á gistiþjónustu séu fjölmörg tækifæri sem hægt sé að nýta.

Ingibjörg tók við starfi hótelstjóra á Hótel Sögu um síðustu áramót en hún hefur starfað í hótelgeiranum í tæp 30 ár, þar af rúm 20 ár sem hótelstjóri. Í viðtali við Viðskiptablaðið fer Ingibjörg yfir stöðu og horfur hótelgeirans hér á landi sem og ferðaþjónustunnar í heild sinni. Þá svarar Ingibjörg einnig spurningum um fjárhagslega stöðu hótelsins sem á nú í viðræðum um fjárhagslega endurskipulagningu.