Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands segir brýnt að halda vörð um menntun og vísindi, sérstaklega þegar farið er í gegnum erfiðleika líkt og Íslendingar gera nú.

Þetta sagði Kristín á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem nú stendur yfir.

Kristín sagði að mikil verðmæti væru fólgin í aukinni menntun og minnti á þann árangur sem nemendur háskóla hér á landi hafa náð undanfarin ár. Hún sagði samstarf Háskóla Íslands eiga í góðu samstarfi við erlenda háskóla af bestu gæðum sem væri ákveðinn gæðastimpill á námi við HÍ.

Hún sagði öflugar vísindarannsóknir oft vera mikilvæg forsenda nýsköpunar og verðmætasköpunar, oft kveikjan að nýjum kerfum, nýjum aðferðum og stofnun sprotafyrirtækja.

Máli sínu til stuðnings taldi Kristín upp nokkurn fjölda sprotafyrirtækja sem hafa verið stofnuð og byggja á niðurstöðum vísindarannsókna við HÍ og oft orðið til vegna samstarfs frumkvöðla úr ólíkum greinum.

„Frumkvöðlarnir, sem standa að sprotafyrirtækjum innan Háskólans, hafa aflað innlendra og erlendra styrkja til rannsókna,“ sagði Kristín.

„Þær hafa getið af sér hagnýtar niðurstöður sem fyrirtækin eru grundvölluð á.  Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar hafa lagt til fjármagn á síðari stigum.  Háskóli Íslands hefur lagt þeim til aðstöðu og fé til rannsókna og opnað möguleika á samstarfi við nemendur í meistara- og doktorsnámi. Þessi verkefni hafa getað nýtt sér alþjóðlegt tengslanet skólans og  fengið aðstoð við undirbúning og umsóknir vegna einkaleyfa.“