Isavia mun fella tímabundið niður notendagjöld á Keflavíkurflugvelli, en um er að ræða bæði lendingargjöld og yfirflugsgjöld sem greiða fyrir ýmis konar flugleiðsögu og þjónustu félagsins við flugfélög.

Niðurfellingin mun vara meðan ferðabann til Bandaríkjanna stendur yfir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins .

Félagið er með þessu sagt styðja við viðskiptavini sína „á fordæmalausum óvissutímum með það að markmiði að auðvelda flugfélögum að taka ákvarðanir um áframhaldandi flug til Íslands þrátt fyrir lakari sætanýtingu.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fagnar þessari ákvörðun.

„Með ákvörðun sinni leggur Isavia sitt lóð á vogarskálarnar með stjórnvöldum til að styðja við íslenska ferðaþjónustu á krefjandi tímum. Mikilvægt er að viðhalda öflugri flugstarfsemi sem er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og efnahagslífi.“