Hagnaður Ís­fé­lags Vest­manna­eyja minnkaði milli ára og nam 39 milljónum dala í fyrra, sem sam­svarar um 5,4 milljörðum króna á gengi dagsins. Fé­lagið skilaði um 61 milljón dala hagnaði árið 2022 en helstu á­stæður fyrir lækkun milli ára eru gagn­virðis­breytingar vegna vaxta­skipta­samninga og hluta­bréfa­af­leiða.

Tekjur fé­lagsins jukust tölu­vert á milli ára og námu 194 milljónum dala, sem sam­svarar hátt í 27 milljörðum króna á gengi dagsins.

Mun það vera hækkun úr 164 milljónum dala árið 2022 en tekju­aukningin skýrist að mestu af sam­einingu Ramma hf. og Ís­fé­lagsins um mitt ár 2023.

Yfir sex milljarða hagnaður með Ramma

Sam­einingu fé­laganna lauk 30. júní 2023 en þar af leiðandi er rekstur Ramma hf. fyrstu 6 mánuði ársins ekki með­talinn í árs­upp­gjöri Ís­fé­lagsins.

Í Pro forma reikningi sem birtist sam­hliða upp­gjöri Ís­fé­lagsins, þar sem rekstur fé­laganna tveggja er tekinn saman fyrir allt árið, er hagnaður sam­stæðunnar 45 milljónir dala eða sem nemur 6,2 milljörðum króna á gengi dagsins.

Rekstrar­tekjur sam­kvæmt Pro forma reikningi námu 232 milljónum dala árið 2023 sem sam­svarar 32 milljörðum króna.

Greiða 2,1 milljarð í arð

EBITDA ársins 2023 hjá Ís­fé­laginu var 71 milljón dala eða um 34% af rekstrar­tekjum. Tekjur fé­lagsins

Stjórn fé­lagsins leggur til að greiddur verði arður að fjár­hæð 2,1 milljarða króna á árinu 2024 vegna rekstrar­ársins 2023.

Heildar­eignir Ís­fé­lagsins námu 804 milljónum Banda­ríkja­dala í lok ársins 2023, sem sam­svarar um 111 milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Eignirnar skiptast í fasta­fjár­muni að and­virði 663 milljónir dala og veltu­fjár­muni að and­virði 141 milljóna dala.

Heildar­eignir fé­lagsins jukust um 469 milljónir dala á milli ára vegna sam­eingar við Ramma.

Fasta­fjár­munir jukust um 400 milljónir dala en kaup Ís­fé­lagsins á 29% hlut í Austur holding hafði nokkur á­hrif á hækkun fasta­fjár­muna. Veltu­fjár­munir hækkuðu um 69 milljónir dala milli ára.

„Í mars keypti fé­lagið 29% hlut í eignar­halds­fé­laginu Austur Holding, sem er stærsti eig­andi í Ice Fish Farm, sem er lax­eldis­fyrir­tæki á Austur­landi. Kaupin á hlutnum í Austur Holding jafn­gilda 16,4% hlut í Ice Fish Farm,” segir Stefán Frið­riks­son for­stjóri í upp­gjöri.

Í lok árs 2023 var eigið fé Ís­fé­lagsins 554,2 milljónir dala sem er hækkun úr 229 milljónum dala árið áður. Eigin­fjár­hlut­fallið var 68,9%.

Hand­bært fé í lok tíma­bilsins nam 44 milljónum dala.

Loðnubrestur mun hafa töluverð áhrif í ár

Stefán Frið­riks­son for­stjóri Ís­fé­lagsins segir í upp­gjöri að loðnu­ver­tíðin í fyrra hafi verið góð bæði afla­brögð og vinnsla.

„Fram­leiðsla loðnu­hrogna var mikil á árinu, m. a. vegna þess að afla­heimildir voru auknar veru­lega þegar langt var liðið á ver­tíðina. Vegna þessa fór fram­boð á hrognum á Ís­landi langt fram úr eftir­spurn sem olli verð­lækkun og birgða­söfnun.

Síldar­veiðar gengu afar vel á árinu, veiðin var góð og stutt á miðin og fiskurinn góður.

Ís­fé­lagið veiddi um 127 þúsund tonn af upp­sjávar­fiski á árinu og fram­leiddi um 32 þúsund tonn af frystum af­urðum og 29 þúsund tonn sam­tals af mjöli og lýsi,” segir Stefán.

Í upp­gjöri er þó gert ráð fyrir að loðnu­bresturinn í ár muni hafa tals­verð á­hrif á af­komu fé­lagsins á yfir­standandi ári.

Fé­lagið stendur þó í um­tals­verðum fjár­festingum á árinu þar sem verið er að auka af­köst fiski­mjöls­verk­smiðjunnar í Vest­manna­eyjum og undir­búa byggingu frysti­geymslu á Þórs­höfn.

Togarinn Sigur­björg, sem er í smíðum í Tyrk­landi, er síðan væntan­legur til landsins í maí.

„Allar þessar stóru fjár­festingar munu bæta reksturinn í fram­tíðinni auk þess sem fé­lagið er á­fram fjár­hags­lega afar sterkt til að takast á við frekari fjár­festingar og tæki­færi á komandi árum,” segir í upp­gjöri.