Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) spáir því að draga muni úr hagvexti nýmarkaðsríkja í heiminum á næsta ári og að þróuð lönd, svo sem Bandaríkin og Japan, muni leiða vöxtinn á ný í fyrsta skipti frá 2010.

Framkvæmdastjóri AGS, Christine Lagarde, bendir á að svo virðist sem nýmarkaðsríkin séu farin að hægja á sér, sér í lagi Kína, Indland og Brasilía. Talsverður fjármagnsflótti hefur verið frá löndunum á síðustu vikum og mánuðum eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti að stefnt væri að því að draga úr inngripum bankans á markaði, sem hafa falist í kaupum bankans á bandarískum skuldabréfum í þeim tilgangi að lækka vaxtastigið. Fjárfestar leituðu til nýmarkaðsríkjanna sökum hærri ávöxtunar en hafa margir hverjir dregið úr fjárfestingum sínum þar á síðustu mánuðum í von um að vextir hækki á ný í Bandaríkjunum.

Þó að Ísland falli ekki undir nýmarkaðsríki er ljóst að minnkandi hagvöxtur ríkjanna getur haft talsverð áhrif hér á landi. Á síðasta ári voru 10% af útflutningsverðmæti Íslands flutt út til nýmarkaðsríkja og var á síðasta fjórðungi ársins um 15% útflutningsverðmætis, en hlutfallið hefur farið hækkandi á síðustu árum. Að raunvirði hefur verðmæti vara sem fluttar hafa verið til nýmarkaðsríkja frá Íslandi farið úr um 7 milljörðum króna um aldamótin í 63 milljarða króna á síðasta ári eða um 4% af vergri landsframleiðslu Íslands.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .