Fjarskipti Íslendinga við útlönd voru í hættu nú um miðjan aprílmánuð. Þetta kemur fram á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Þar segir að fyrirtækið Farice ehf. sem rekur tvo sæstrengi milli Íslands og Evrópu hafi hinn 15. apríl síðastliðinn þurft að standa skil á 226,5 milljóna króna afborgun, en fjármagnið var þá ekki handbært.

Haft er eftir Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra að til að halda fyrirtækinu gjaldhæfu og í rekstri hafi reynst nauðsynlegt að koma með fjármagnið þar inn. Því var ákveðið að gera þjónustusamning til fimm ára á milli ráðuneytis samgöngumála og Farice. Ríkisstjórn samþykkti hinn 11. apríl síðastliðinn að heimila undirskrift samningsins. Ríkið mun á grundvelli samningsins greiða félaginu 355 milljónir árið 2012.

Á minnisblaði fjármálaráðherra um málið segir meðal annars: „Miklir almannahagsmunir eru í húfi við að viðhalda fjarskiptatengingum við umheiminn og vegna ríkisábyrgða á skuldum félagsins verður að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins.“