Samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans er Ísland önnur umhverfisvænasta þjóð heims. Staða Íslands í alþjóðasamhengi er mjög sterk — sér í lagi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi. Um málið er fjallað á vef Samorku .

„Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.

Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi“ segir í fréttinni.

Þó að vísitalan sé til marks um góðan árangur þegar kemur að loftlagsmálum, þá kemur fram í frétt Samorku að enn megi ná betri árangri. „Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega“ segir þar.