Búist er við því að erlendir fjárfestar í Íslandsbanka verði kynntir til leiks í næstu viku. Kjarninn greinir frá þessu og kveðst hafa fyrir því heimildir.

Þar segir að viðræður við nokkra hópa hafi staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og þeir sem hafi sýnt mestan áhuga komi annars vegar frá löndum við Persaflóa í Mið-Austurlöndum og hins vegar frá Kína. Greinir Kjarninn frá því að um sé að ræða risastór fyrirtæki sem eigi þegar hluti í alþjóðlegum bönkum. Einhverjir hópanna hafi ritað undir viljayfirlýsingu um kaup á bankanum í febrúar.

Tillögur sem kröfuhafar Glitnis hafa lagt fram framkvæmdahóp um losun fjármagnshafta gera ráð fyrir að íslenska ríkið fái tæplega 117 milljarða króna í sinn hlut verði bankinn seldur í til erlendra fjárfesta. Verði hann hins vegar seldur til innlendra fjárfesta mun ríkið fá 80,8 milljarða króna.