Breytingar hafa orðið á einkabankasviði Íslandsbanka í Lúxemborg og hafa þrír starfsmenn sagt upp störfum og gengið til liðs við Kaupþing banka og Landsbanka Íslands á svæðinu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Orðrómur er um að ósætti hafi komið upp á milli starfsmannanna og Allan Strand Olesen, sem stjórnar rekstrareiningum bankans í Benelúx-löndunum, Þýskalandi, Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum.

Talsmaður Íslandsbanka vísaði orðrómnum á bug en sagði að stefna bankans í einkabankaþjónustunni í Lúxemborg hafi breyst og nú sé horft meira til Noregs og Danmerkur en áður.

Starfsmenn einkabankasviðs Íslandsbanka eru allir erlendir eftir að íslensku starfsmennirnir létu af störfum. Sigvaldi Stefánsson og Hildur Eiríksdóttir gengu til liðs við Kaupþing banka og Árni Pétursson hefur hafið störf hjá Landsbankanum í Lúxemborg.