Íslensk stjórnvöld undirbúa nú beiðni um efnahagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), að því er kemur fram í frétt RÚV um málið. Fréttastofa RÚV segir heimildamenn sína innan ríkisstjórnarflokkanna segja að nú sé rætt við embættismenn IMF um hvernig IMF komi að málum hér á Íslandi.

Áður hefur aðalhagfræðingur IMF lýst því yfir að hann vonist til að stjórnvöld þiggi hjálp sjóðsins.

Geir H. Haarde vildi í viðtali við Viðskiptablaðið á fimmtudag ekki útiloka að leitað yrði til IMF. Hann sagði þó á blaðamannafundi í gær að skoða þurfi í hverju aðstoðin felist og hverjir skilmálar fyrir henni séu, svo að menn geti gert upp hug sinn varðandi þetta mál.

Samkvæmt frétt Reuters munu japönsk stjórnvöld leggja til á fundi G7 ríkjanna að Ísland fái aðstoð frá IMF.