Fara þarf eftir lögum og setja slitabú í þrot og gæta þess að allir séu jafnir fyrir lögum. Þetta sagði Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir á fundi Samtaka atvinnulífsins í gær þar sem fjallað var um afnám hafta. Heiðar hefur sjálfur farið fram á gjaldþrotaskipti á Glitni en hann á almenna kröfu upp á 3,1 milljón króna. Hann sagði á fundinum að það væri tvennt sem hindraði afnám hafta: vöntun á trúverðugri peningastefnu og uppgjör slitabúa föllnu bankanna. „Að semja sig framhjá lögum er óásættanleg pólitísk áhætta. Nauðasamningar standast ekki núverandi lög og væru nær óframkvæmanlegir tæknilega,“ sagði Heiðar og bætti við að til þess þyrfti kosningu með nægri þátttöku fyrir nauðasamningi. Fyrst ætti að setja slitabúin í þrot og svo afnema höft fyrir alla, ekki skref fyrir skref. Kröfurnar væru í íslenskum krónum, sagði Heiðar Már.

Þrotabúið væri síðan skilaskylt á gjaldeyri og við það myndi Seðlabankinn eignast yfir 1.500 milljarða í gjaldeyri. „Íslenskir kröfuhafar fá greitt en aðrir væru fastir í höftum,“ þar sem samkvæmt lögum væri það talin vera tilfærsla á fjármagni milli landa. Heiðar sagði erlenda kröfuhafa ekki mega fara út fyrir höftin fyrr en trúverðug peningastefna væri fundin en slíkt gæti tekið tíma. Þegar ætti eftir að smíða nýja lagaumgjörð um Seðlabankann. „Gefum því sex mánuði í þinglegri meðferð. Síð- an þarf að fjölga seðlabankastjórum, gefum því sex mánuði. Þeir þurfa síðan að ná saman um útfærslu á lagaumgjörðinni. Það er í fyrsta lagi eftir tvö ár sem menn verða komnir með peningastefnu sem byggir á krónunni,“ sagði Heiðar.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.