Síðasta laugardag var greint frá því að British Airways biði farmiða á 5.055 krónur til Lundúna í vetur. Í kjölfarið sendi flugfélagið Wow air út netklúbbstilboð þar sem flugmiðar þessa sömu leið voru seldir á 5.999 krónur. Þá lækkaði Icelandair einnig sitt verð nú í vikunni og lækkuðu ódýrustu farmiðar félagsins til Lundúna úr 17.455 krónum niður í 16.205 krónur. Túristi greinir frá þessu.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir í samtali við Túrista að ástæðu þessarar verðlækkunar félagsins vera að það væri markmið flugfélagsins að bjóða lægsta verðið. Náði félagið hins vegar ekki að bjóða lægra verð en British Airways.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir hins vegar að eldsneytisálag hafi verið lækkað á dögunum og það geti haft áhrif á verð. „Við lækkuðum eldsneytisálagið um 15% á dögunum, og það getur haft áhrif á þessi verð, þó svo eftirspurn ráði almennt verði í flugi eins og allir þekkja," segir Guðjón í samtali við Túrista.