Stjórnvöld á Ítalíu áforma að gefa út skuldabréf til eins árs upp á fimm milljarða evra. Um tilraunaútgáfu er að ræða til að meta endurfjármögnunarmöguleika ítalska ríkisins.

Reyndar blæs ekki byrlega fyrir Ítölum enda beinast augu heimsins nú að því sem næsta hugsanlega fórnarlamb skuldakreppunnar á evrusvæðinu og þarf ríkið að greiða himinhátt álag á lán sín, 7,5%.

Þá hefur ekki bætt úr skák að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í gær mikilvægt að hraða umbótum á evrusvæðinu. Þjóðverjar þykja orðnir langþreyttir á slóðahætti skuldsettra evruríkja og mun það hafa komið til tals á meðal ráðamanna í Frakklandi og Þýskalandi, stærstu evruríkjanna, að skipta evrusvæðinu upp, jafnvel minnka það, samkvæmt heimildum fréttastofu Reuters.