Já­kvæð raun­á­vöxtun var á öllum sam­eignar- og sér­eignar­deildum Líf­eyris­sjóðs starfs­manna ríkisins (LSR) í fyrra og skilaði sjóðurinn í heild 9,2% nafn­á­vöxtun, sem sam­svarar 1,1% raun­á­vöxtun.

Þetta er meðal niður­staðna árs­reikninga LSR fyrir árið 2023 sem stjórn sjóðsins undir­ritaði á fundi sínum í dag.

Eignir LSR jukust um 112 milljarða króna á árinu og var heildar­eign sjóðsins 1.405 milljarðar í árs­lok.

Raun­á­vöxtun LSR síðustu 5 ára er 4,0% að meðal­tali og 10 ára meðal­tal raun­á­vöxtunar er 4,4%.

„Virkum sjóð­fé­lögum fjölgaði um ríf­lega 700 frá fyrra ári og var meðal­fjöldi þeirra 31.388. Líf­eyris­þegum fjölgaði einnig og var meðal­fjöldi þeirra 24.632 á síðasta ári saman­borið við 23.527 árið á undan. Líf­eyris­greiðslur árið 2023 voru rúm­lega 93 milljarðar,” segir í til­kynningu frá LSR.

Raun­á­vöxtun ís­lenskra líf­eyris­sjóða var já­kvæð um hálft prósent að meðal­tali á árinu 2023, saman­borið við 12% nei­kvæða raun­á­vöxtun árið 2022, sam­kvæmt á­ætlun Lands­sam­taka líf­eyris­sjóða.

Nafn­á­vöxtun í fyrra var rúm­lega 8% að meðal­tali en verð­bólga ársins var 7,7%.

Sam­kvæmt LSR var síðasta rekstrar­ár krefjandi en markaðir voru sveiflu­kenndir á árinu.

„Á­vöxtunar­krafa á skulda­bréfa­markaði fór hækkandi vegna þrá­látrar verð­bólgu. Hækkandi fjár­mögnunar­kjör juku sveiflur og ó­vissu á inn­lendum hluta­bréfa­markaði sem lækkaði mikið framan af ári. Undir lok árs vænkuðust hins vegar verð­bólgu­horfur og já­kvæðar fréttir bárust af stórum hluta­fé­lögum í kaup­höllinni sem leiddi til hækkana. Þótt það hafi ekki dugað til að árs­á­vöxtun á inn­lendum hluta­bréfa­markaði yrði réttu megin við núllið skiluðu er­lend hluta­bréf hins vegar góðri á­vöxtun og heildar­niður­staðan varð því 9,2% nafn­á­vöxtun.”

Eigna­safn sjóðsins í árs­lok skiptist þannig að eign í skulda­bréfum var 565,7 milljarðar. Eign í hluta­bréfum og hlut­deildar­skír­teinum var 672,7 milljarðar og inn­lán námu 53,9 milljörðum.

Hlut­fall eigna í er­lendri mynt var tæp­lega 41% og hlut­fall verð­tryggðra eigna var um 34,3% af eigna­safni sjóðsins í árs­lok 2023.

Hrein raun­á­vöxtun A-deildar LSR var 0,9%, B-deildar 1,5% og hjá Sér­eign var hrein raun­á­vöxtun Leiðar I 2,7%, Leiðar II 0,1%, 0,7% hjá Leið III og 3,9% í til­greindri sér­eign, sem var stofnuð 1. júlí 2023.

Trygginga­fræði­leg staða A-deildar hækkar úr -5,8% í -1,5% milli ára sem skýrist af breytingum á á­unnum réttindum sem fram­kvæmdar voru á miðju ári.