Gengi japanska jensins gagnvart Bandaríkjadollar hefur ekki verið lægra frá árinu 1990 eftir áframhaldandi veikingu gjaldmiðilsins í dag. Markaðsaðilar fylgjast nú grannt með merkjum um möguleg inngrip japanska stjórnvalda til að styðja við gengi jensins.

Shunichi Suzuki, fjármálaráðherra Japans, sagðist fylgjast náið með gengi jensins og lýsti því yfir að japönsk stjórnvöld væru „vel undirbúin“ að bregðast við.

Í umfjöllun Reuters um málið er helst bent á styrkingu Bandaríkjadollarans undanfarna daga. Nýlegar hagtölur, þar á meðal verðbólgutölur sem voru yfir spám hagfræðinga, hafa ýtt undir væntingar um að Seðlabanki Bandaríkjanna kunni að seinka upphafi fyrirséðs vaxtalækkunarferlis til september. Jafnframt kunni aukin spenna í Miðausturlöndum að lita gjaldeyrismarkaði.

Gengi dollarans gagnvart jeninu stóð í 154,28 í dag eftir meira en hálfs prósents hækkun í dag. Árið 2022 keypti japanska fjármálaráðuneytið 9,2 þúsund milljarða jena með sölu á Bandaríkjadollurum. Þá stóð gengi dollarans gagnvart jeni í kringum 152.