Jón Ásgeir Jóhannesson hefur tekið við stjórnarformennsku í Iceland matvöruverslunum í Bretlandi að því er kemur fram í frétt á heimasíðu félagsins.

Baugur keypti Iceland árið 2004. Iceland er viðamikið félag en verslanakeðjan var stofnuð árið 1970 og telur nú yfir 660 verslanir víðs vegar um Bretland og Írland. Iceland sérhæfir sig í frosinni matvöru. Fyrirtækið er sú verslanakeðja sem er í hvað örustum vexti í Bretlandi.

„Iceland er öflugt fyrirtæki og á mikið inni,“ er haft eftir Jón Ásgeiri í tilkynningunni í kjölfar þess að hann tók við stjórnarformennsku í félaginu.

„Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og taka þátt í frekari uppbyggingu.“

Við þessa breytingu hættir Jón Ásgeir í stjórnum Magasin og Illum og lætur um leið af stjórnarformennsku í báðum félögum.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs, hefur tekið við af Jóni Ásgeiri í Magasin og Illum, og verður um leið stjórnarformaður í félögunum.

Í fréttinni kemur fram að mikill viðsnúningur til hins betra hefur orðið í rekstri Magasin og Illum síðastliðin 3 ár, en Baugur keypti sig inn í fyrirtækin ásamt öðrum fjárfestum árin 2004 og ´05. Verslanirnar hafa tekið algjörum stakkaskiptum á þessum tíma og Magasin er á ný orðin eftirlæti danskra viðskiptavina, enda skilaði félagið miklum rekstrarhagnaði á síðasta ári í fyrsta sinn síðan á níunda áratugnum.

Eftir sem áður er Jón Ásgeir í stjórn Mosaic Fashion í Bretlandi, sem er móðurfyrirtæki sjö kventískuvörumerkja: Oasis, Warehouse, Principles, Karen Millen, Coast, Odille og Anoushka G. Auk þess er Mosaic Fashions móðurfyrirtæki Shoe Studio Group sem er með ýmiss skóvörumerki á sínum snærum.

Hann situr einnig í stjórn House of Fraser.