Jón Daníelsson, dósent í fjármálum við London School of Economics, segir mikilvægt þegar bankar verði gjaldþrota að almenningur og fyrirtæki hafi ótruflaðan aðgang að bankaþjónustu.

Við þessar aðstæður er stundum notað tækið að skipta bönkunum upp í „vondan banka“ og „góðan banka“. Vondi bankinn heldur utanum eignirnar en sá góði útibúin og þjónustuna.

„Þetta væri góð lausn en kannski ekki sú eina,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Líkt og alþjóð veit hafa viðskiptabankarnir þrír, Glitnir, Landsbankinn og Kaupþing, verið þjóðnýttir í vikunni.

„Í þessu tilviki er skynsamlegt að sameina ekki góðu bankana til þess að halda upp samkeppni á markaðnum. En þess vegna má sameina vondu bankanna. Síðan þarf stefnan að vera sú, að við fyrsta mögulega tækifæri verði góðu bankarnir einkavæddir,“ segir Jón.