Jón Gnarr ætlar ekki að bjóða sig aftur fram sem borgarstjori í Reykjavík. Jón tilkynnti þetta í sérstökum þætti Tvíhöfða á Rás 2 í dag sem tileinkaður var Bleiku slaufunni. „Besti flokkurinn mun renna saman við Bjarta framtíð. Fólkið í Besta flokknum mun bjóða fram í næstu kosningum undir merkjum Bjartrar framtíðar og þar verð ég fjarri góðu gamni. Og ég ætla að fara að leita að gleðinni,“ sagði Jón Gnarr.

Jón Gnarr bauð sig fram til setu í borgarstjórn fyrir Besta flokkinn fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2010. Besti flokkurinn myndaði meirihluta með Samfylkingunni og varð Jón borgarstjóri en Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, varð formaður borgarráðs.

Hann sagði að ákvörðun sín hefði verið leyndarmál í mánuð. Sér hefði þótt það vont enda væri hann ekki góður í því að halda leyndarmál.