Kínverskar hagtölur hafa legið lengi undir þeirri gagnrýni að þær séu misvísandi.

Gífurlegur hagvöxtur hefur verið í landinu um þónokkurt skeið en að sama skapi hefur verðbólga haldist mjög stöðug samkvæmt opinberum gögnum. Gagnrýnisraddir hafa heyrst í því sambandi um að opinberar tölur um verðbólgu frá Kína séu slæmar en hingað til hefur verið erfitt að meta nákvæmlega hversu slæmar þær eru. Economist greindi nýlega frá ritgerð eftir Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia háskóla, og tvo aðra kollega hans, sem reynir að varpa ljósi á misræmi í kínverskum verðbólgumælingum. Niðurstöður hennar gefa til kynna að kínverskar verðbólgumælingar gefa jafnaða (e. smoothed) útgáfu af raunveruleikanum.

Leiðrétta ekki rétt fyrir verðbólgu

Jón segir rannsóknina vera byggða á ákveðnu sambandi sem kennt er við þýska tölfræðinginn Ernst Engel. „Það er vel rannsakað samband sem sýnir að þegar fólk verður efnaðra þá eyðir það minni og minni hlut tekna sinna í nauðsynjavörur eins og mat. Þegar við skoðum hvernig þetta samband þróast yfir ákveðinn tíma í Kína þá sjáum við að það er að færast til á milli ára. Ein hugsanleg skýring fyrir því er sú að Kínverjar eru ekki að mæla það rétt hversu efnað fólk er. Það er tiltölulega auðvelt að mæla þjóðarframleiðslu á nafnvirði en það sem er flókið er að leiðrétta hana fyrir verðbólgu. Kenning okkar er að orsakasambandið þarna er að færast til vegna þess að þeir leiðrétta ekki fyrir verðbólgu með réttum hætti.“

Nánar er fjallað um greinina í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .