*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 30. maí 2020 13:05

Ætla að þrefalda hagnaðinn eftir tvö ár

Sala á starfsemi Alvogen í Evrópu markar tímamót. 25 milljarða tap og neikvætt eigið um áramótin er ekki talið áhyggjuefni.

Ingvar Haraldsson
Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sala Alvogen á starfsemi félagsins í Mið- og Austur-Evrópu markar viss tímamót hjá félaginu. Alvogen hyggst nú leggja áherslu á vöxt á hinum stóru sviðum félagsins, í Bandaríkjunum annars vegar og Asíu hins vegar.

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, segir markmið Alvogen var að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði þrefalt meiri árið 2022 en á síðasta ári. EBITDA Alvogen hafi verið 176 milljónir dollara á síðasta ári að meðtalinni starfseminni í Mið- og Austur-Evrópu en 121 milljón dollara án þess hluta starfseminnar. Stefnt sé að því að EBITDA félagsins verði tæpar 300 milljónir dollara á þessu ári og því næsta og um 556 milljónir dollara árið 2022.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í febrúar sagði Árni að stefnt væri að því að þrefalda umsvifin í Bandaríkjunum á næstu þremur árum og auka umsvifin í Asíu um 60% á þessu ári. Skrifað var undir kaupsamning vegna sölunnar á starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu (CEE) í október en endanlega var gengið frá sölunni í apríl. Kaupandinn var tékkneska lyfjafyrirtækisins Zentiva. Kaupverðið er trúnaðarmál en Reuters sagði frá því árið 2018 að Alvogen stefndi að því að fá um einn milljarð dollara fyrir starfsemina.

Neikvætt eigið fé ekki áhyggjuefni

Alvogen var rekið með 203 milljóna dollara tapi á síðasta ári, jafnvirði um 25 milljarða króna, samkvæmt ársreikningi samstæðu félagsins, Alvogen Lux Holdings Sàrl í Lúxemborg, miðað við 70 milljóna dollara tap árið 2018. Samdráttur í Bandaríkjunum er helsta ástæða rýrari afkomu í fyrra.

Árni segir að búast megi við því að hagnaður verði af starfsemi félagsins á þessu ári. Eigið fé félagsins er neikvætt um 117 milljónir dollara, jafnvirði um 14 milljarða króna í árslok 2019.

Í ársreikningnum kemur fram að stjórnendur félagsins telji það ekki áhyggjuefni eftir söluna á starfseminni í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið hafi nægt fjármagn til að styðja við frekari vöxt þess. Samkvæmt ársreikningi Alvogen voru eignir tengdar starfsemi Alvogen í Mið- og Austur-Evrópu metnar á um 367 milljónir dollara en skuldir á um 339 milljónir dollara. Velta þessa hluta Alvogen nam um 223 milljónum dollara árið 2019 en starfsmenn voru ríflega þúsund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Alvogen