Hagvaxtarskeið undanfarinna ára er á enda og fram undan er mikilvæg efnahagsaðlögun. Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs Íslands er farið yfir helstu orsakir og afleiðingar þeirrar útþenslu sem átt hefur sér stað í umsvifum hins opinbera á undanförnum árum.

Mikill hagvöxtur orsakaðist m.a. af aðild að EES, einkavæðingu, einföldunum  á skattkerfinu og lækkunum á skatthlutfalli. Tekjur ríkisins jukust hratt samfara þessum breytingum. Útgjöld hins opinbera hafa þó einnig aukist en þau námu um 43% af landsframleiðslu árið 2007. Segir í skýrslunni að góð skuldastaða ríkis og sveitarfélaga sé eingöngu tilkomin vegna stóraukinna tekna en ekki vegna aðhalds í rekstri.

Horfur eru nú slæmar í efnahags- og viðskiptalífi. Ef svo fer sem horfir munu tekjur hins opinbera dragast verulega saman, auk þess sem afkoma ríkis og  sveitarfélaga mun fara hratt versnandi ef ekkert verður að gert.

Í skýrslunni greinir Viðskiptaráð frá tillögum sínum til úrbóta. Telur Viðskiptaráð nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem fyrst,  ekki síst vegna neikvæðra horfa í ríkisfjármálum.

Endurskoða þarf  fjárlagaferlið og framkvæmd fjárlaga

Helstu veikleikar fjárlagakerfisins, að mati Viðskiptaráðs, lúta að því hvernig mat á fjárþörf byggist aðallega á fjárlögum fyrra árs, ríkisreikningar liggja of seint fyrir til að koma að raunverulegu gagni við fjárlagagerð. Vanmat á fjárlögum er kerfisbundið og tilflutningur fjárlaga er umtalsverður á milli ára.

Í skýrslunni er lagt til að forsætis- og fjármálaráðherra taki út alla liði fjárlaga og meti raunverulega fjárþörf frá grunni. Hálfsársuppgjör ríkisreikninga þarf einnig að liggja fyrir áður en fjárlög næsta árs eru samþykkt, það yrði gert með bættu upplýsingakerfi.

Viðskiptaráð telur að innleiða ætti bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil og aukning útgjalda eftir framlagningu fjárlaga ætti að lúta sömu skilyrðum og ef um fjáraukalög væri að ræða.

Sveiflujöfnun

Viðskiptaráð telur að setja ætti útgjaldaramma sem miðast við fastan nafnvöxt þannig að útgjöld hins opinbera aukist í samdrætti en dragist saman í þensluástandi.

“Hið opinbera ætti að sinna af alvöru hlutverki sínu til sveiflujöfnunar, sem þýðir að spýtt er í þegar hægir á, en dregið úr í þensluástandi,” segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og einn höfunda skýrslunnar. Viðskiptaráð leggur til að skipað yrði efnahagsráð sem í sætu fulltúar ríkis, sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands. Þannig mætti vinna betur að samhæfingu efnahagsstjórnar.

Ríkið á að draga sig úr starfsemi þar sem samkeppni ríkir við einkaaðila. Fram kemur í skýrslunni að draga ætti útgjöld hins opinbera saman um fimmtung á næstu tíu árum. Telur Viðskiptaráð að það myndi leiða til framleiðniaukningar og bættrar samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu.

Mikilvægt er að viðbrögð komi frá ríkisstjórninni. “Hlutverk hins opinbera er fyrst og fremst að búa hér til umhverfi þar sem atvinnulíf geti þrifist,” segir Finnur. Jafnframt segir hann að meginmarkmiðið núna sé að ná niður vöxtum og verðbólgu og tryggja áframhaldandi hagfellt rekstrarumhverfi og blómlegt atvinnulíf.