Samkvæmt tölum frá samtökum kampavínsútflytjenda í Champagne í Frakklandi voru fluttar inn 44.040 kampavínsflöskur til Íslands árið 2016, en að sögn Arnars Sigurðssonar, vínkaupmanns í Sante ehf., hefur salan aukist verulega í ár og telur hann það eiga við um flestar tegundir kampavíns.

Tölur fyrir 2017 eru enn ekki tiltækar, en bráðabirgðatölur fyrir heildarútflutning kampavíns á fyrri hluta ársins bentu til um 9% aukningar. Hafi útflutningurinn haldið því striki kynni 2017 að verða metár í kampavínsútflutningi Frakka. Kampavínssala er oft talin til marks um gang í efnahags- og viðskiptalífi, en hún helst jafnan mjög í hendur við auknar ráð- stöfunartekjur. Á alþjóðavísu líta menn á heimssöluna á kampavíni sem örugga vísbendingu um væntingar efnameiri neytenda. Hún er nokkuð einfaldur kvarði og auð- mælanlegur á sölu á munaðarvöru, en eins hafa menn tekið eftir verulegri fylgni milli kampavínssölu annars vegar og eftirspurn eftir alþjóðlegri fjárfestingu einstaklinga, hvort heldur er í fasteignum eða hlutabréfum.

Þessi aukna sala á kampavíni á Íslandi og þróun á henni undanfarin ár helst mjög í hendur við þróunina í helstu nágrannalöndum, þó að vinsældir kampavíns séu nokkuð misjafnar milli landa. Árið 2007 – árið áður en fjármálakreppan dundi yfir og íslenska bankakerfið hrundi – er enn metárið. Næstu ár á eftir voru færri ástæður til þess að skála í kampavíni en áður, en undanfarin tvö ár þykir mönnum greinilega komið svigrúm til þess að gera vel við sig. Ósagt skal um það hvort þetta endurspegli aukið áræði Íslendinga, því inni í þessum tölum felst auðvitað einnig aukin áfengissala til stóraukins fjölda ferðamanna. Það er erfitt fyrir hagfræðinga að halda utan um allar heimsins stærðir og reyna að draga af þeim nákvæmar ályktanir.

Aftur á móti er talsvert um að menn horfi til ýmissa sértækra, jafnvel sérkennilegra hagstærða og telji þær til marks um stærri þróun. Hrávöruverð á kaffi er gott dæmi, margir kannast við Big Mac-vísitöluna, en svo eru til enn skrýtnari hagvísar eins og sala á dósamat, tannlæknabókanir og sölutölur Coca Cola í Kenýa.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð