Heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun verður vart undir 146 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum sem Landsvirkjun sendi frá sér fyrr í dag. Þar er einnig uppfært arðsemismat vegna virkjunarinnar og arðsemin talin hærra en í fyrri áætlunum, eða 13,4% arðsemi eiginfjár í stað 11,9% eins og gert var ráð fyrir í upphafi.

Fyrri endurskoðun á arðsemismatinu sem fram fór árið 2006 leiddi í ljós að heldur hafði dregið úr arðsemi verkefnisins þótt það stæðist áfram arðsemiskröfur eigenda Landsvirkjunar. Meginskýringin á hærra arðsemismati nú er sú að notað er útreikningar á framvirku álverði til fimm ára sem skilar hærri tekjum en gert var ráð fyrir. Þá er gert ráð fyrir að gengi dollara verði áfram lágt miðað við helstu gjaldmiðla og króna áfram nokkuð sterk. Þá er rekstrarkostnaður virkjunarinnar talinn verða öllu lægri en áður var búist við.

56 milljarða munur

Jákvætt núvirði framkvæmdarinnar samkvæmt nýja matinu er 15,5 milljarðar króna, sem er 8,9 milljarða hækkun frá upphaflegri áætlun. Árlegur hagnaður af fyrir skatta af virkjuninni er áætlaður að meðaltali rúmir 4,2 milljarðar króna á verðlagi ársins 2008. Landsvirkjun bað Capacent um að yfirfara matið og álítur fyrirtækið að nálgun Landsvirkjunar sé trúverðug.

Í upplýsingum Landsvirkjunar kemur m.a. fram áfallinn stofnkostnaður að meðtöldum vöxtum á byggingartíma vegna framkvæmda í tengslum við Kárahnjúkavirkjun var alls 111,433 milljarðar króna 30. september síðast liðinn. Áfallinn kostnaður vegna framkvæmda við flutningsvirki var á sama tíma 12.033 milljarðar króna. Þá áætlar Landsvirkjun að áætlaður kostnaður við að ljúka Kárahnjúkaverkefninu, virkjun og flutningsvirkjun, verði 22.590 milljarðar króna. Samtals er þetta 146,023 milljarðar króna. Til samanburðar er heildarkostnaður við Kárahnjúkavirkjun áætlaður um 90 milljarðar króna á verðlagi í janúar 2005, þar af er kostnaður við stíflur við Kárahnjúka rúmir 25 milljarðar. Munar því um 56 milljörðum króna.