„Verðtrygging er ekkert annað en skattur þar sem við erum með krónu,“ segir Katrín Júlíusdóttir fjármálaráðherra. Hún segir stjórnvöld verða að vinna sig inn í umhverfi þar sem landsmenn þurfi ekki að búa við verðtryggð húsnæðislán.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Katrínu að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort ráðherra hafi kynnt sér þær tillögur sem þingmenn flokksins hafi í tvígang lagt fram um afnám verðtryggingarinnar. „Skuldamál heimilanna og verðtrygging er það helsta sem almenningur hefur áhyggjur af,“ sagði Eyglóð.

Katrín lagði á það áherslu í svari sínu að í umræðu um málið verði að taka á tveimur þáttum: verðtryggingunni og stöðu gjaldmiðilsins.

„Þess vegna hefur það verið okkar stefna að leita leiða til að komast inn í aðra mynt. Við það er ekki búið í evruríkjunum að húsnæðislán eru verðtryggð. En það verður ekki gert á næsta eða þarnæsta ári. Fram að því er ég til í að skoða ýmsar leiðir til að koma til móts við þá sem eru að taka lán,“ sagði Katrín.