Alþjóðlega bor- og þjónustufyrirtækið Archer Ltd. hefur keypt 50% hlutafjár í Jarðborunum hf. Fyrir 8,25 milljónir bandaríkjadollara eða um 1,1 milljarð króna. Þetta kemur fram í tilkynningu nú í morgunsárið.

Seljendur eru félagið SF III í rekstri Stefnis ásamt öðrum ónefndnum innlendum hluthöfum, en eftir viðskiptin verður félagið í jafnri eigu Archer og fjárfestingarfélagsins Kaldbaks, dótturfélags Samherja.

Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en reiknað er með að frá þeim verði gengið að fullu á yfirstandandi ársfjórðungi.

Archer er með starfsemi á 45 olíuborpöllum víðsvegar um heim og rekur 81 bor á landi í Suður-Ameríku að því er fram kemur, en Jarðboranir hafa borað yfir 500 borholur eftir jarðhita frá 1970 og er auk Íslands með starfsemi í Azor-eyjum og á Nýja-Sjálandi.

Nýta samlegð til að taka þátt í miklum vexti jarðhitaborana

Haft er eftir forstjóra Archer, Dag Skindlo, í tilkynningunni að jarðvarmi hafi beina skörun og samlegð við kjarnastarfsemi félagsins, sem muni geta nýtt færanlega bora sína og alþjóðleg tengsl í jarðhitaverkefnum Jarðborana þegar fram líða stundir.

„Jarðboranir hf. á sér langa rekstrarsögu í alþjóðlegri starfsemi og er virt vörumerki í jarðhitaborunum og þjónustu við borholur. Jarðvarmamarkaðurinn er hluti af mikilvægustu orkugjöfum framtíðarinnar og á eftir að vaxa verulega á næstu áratugum að mati Alþjóðlegu orkumálastofnunarinnar (IEA) og annarra sérfræðinga í greininni. Áætlað er að árlegur fjöldi borhola, þar sem borað er eftir jarðhita, muni aukast úr 200 í 700 fyrir árið 2030. Ennfremur mun aukin áhersla á hitaveitur í Evrópu knýja áfram vöxt og tækniframfarir.“

Tíu hluthafar um áramót

Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir síðasta ár átti SF III 81,8% hlutafjár í lok síðasta árs, en Kaldbakur var stærsti hluthafi sjóðsins með tæpan 44% hlut um síðustu áramót.

Af 9 öðrum hluthöfum Jarðborana áttu þrír yfir 1% hlut: Baldvin Þorsteinsson, sem er stjórnarformaður SF III, stór hluthafi í Samherja og var forstjóri Jarðborana til ársins 2015, átti 7,8% hlut, fjárfestingafélaginu ID invest – sem einnig er í rekstri Stefnis – var með 5,4% og félagið sjálft átti 1,5% eigin bréfa.

Þá áttu félögin Fontes ehf. sem er í eigu forstjórans Sigurðar Sigurðssonar, F4 ehf. og Icevest ehf. einnig 0,83% hlut hvort.

Reksturinn snúist við í ár

Í ársreikningnum er reksturinn sagður hafa verið „í járnum eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir“ á síðasta ári en félagið tapaði ríflega 90 milljónum króna, sem þó var mun betri niðurstaða en 621 milljónar króna tap ársins áður.

Horfur á þessu ári eru þó sagðar betri, og gert er ráð fyrir hagnaði auk þess sem umtalsverðar fjárfestingar eru sagðar fyrirhugaðar.

Tekjur námu 3,3 milljörðum í fyrra og hjá félaginu störfuðu að meðaltali 79 manns, sem bæði er lítilsháttar samdráttur milli ára. Ríflega helmingur tekna komu frá Azor-eyjum í fyrra – en þær höfðu engar verið árið á undan – á móti 850 milljóna króna tekjusamdrætti hér á landi.