Kaupþing banki hefur áhuga á að sækja fjármagn til einkafjárfesta og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur bankinn ráðið Citigroup og Credit Suisse First Boston til að ná í 100 milljónir Bandaríkjadala (6,3 milljarða íslenskra króna) á einkafjárfestamarkað í Bandaríkjunum.

Talað er um að bankinn þurfi að greiða 110 punkta (1,1 prósentustig) yfir vexti bandarískra ríkisskuldabréfa fyrir bréf sem seld eru einkafjárfestum.

Neikvæð umfjöllun greiningardeilda alþjóðlegu bankanna Dresdner Kleinwort Wasserstein (DrKW) og Royal Bank of Scotland (RBS) um viðskiptamódel Kauþings banka og hvernig bankinn fjármagnar sig hefur hreyft ávöxtunarkröfu skuldabréfa bankans og lækkuðu bréfin um 0,5% í verði stuttu eftir umfjöllunina. RBS, sem gagnrýndi Kaupþing harðlega í greiningu sinni, endurskoðaði skrif sín síðar og tekur fram að umfjöllunin hafi að miklu leyti stuðst við orðróm á markaði.

Umfjöllun DrKW og RBS gæti seinkað kengúruútboði

@mm:Kaupþing hefur verið með fjárfestakynningar í Ástralíu og borgríkinu Singapore nýverið þar sem bankinn áætlar að gefa út svokölluð kengúrubréf. Jónas Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Kaupþings banka, segir bankann vilja sækja fé í fleiri vasa víðar um heim með kengúruútgáfunni.

Sérfræðingar segja að greining DrKW og RBS, ásamt orðrómi um að bankinn hafi áhuga á að kaupa ferðaveitingaeiningu breska fyrirtækisins Compass Group, sem er til sölu fyrir um 108 milljarða íslenskra króna, hafi valdið því að Kaupþing gæti seinkað kengúruútgáfunni. Reiknað er með að útgáfan muni nema um 300-500 milljónum ástralskra dollara (14-23 milljarðar íslenskar krónur).

Talsmenn Kauþings banka hafa neitað því að bankinn íhugi að kaupa einingu Compass en hafa þó staðfest að bankinn hafi sóst eftir upplýsingum um félagið. Orðrómur er í London um að Kaupþing sé í samstarfi við fjárfestingasjóðinn Permira um að kaupa eininguna, sem kallast SSP, og líklegt er að bankinn hafi áhuga á að koma að fjármögnun kaupanna og jafnvel kaupa lítinn hlut í félaginu eins og Kaupþing, og margir aðrir fjárfestingabankar gera reglulega með viðskiptavinum sínum.

Kaupþing banki beið eftir lánshæfismati frá Fitch Ratings áður en skuldabréfaúboðið skyldi hefjast á Ástralíu en eftir að skuldabréf bankans sem þegar eru í umferð tóku að lækka í verði telja sérfræðingar ólíklegt að riðið verði á vaðið í fyrr en vindhviðan er gengin yfir. Fitch gaf út lánshæfismat á Kauþing banka í síðustu viku. Bankinn fékk A í langtímaeinkunn.