Samheitalyfjafyrirtækið Actavis hefur keypt bandaríska lyfjafyrirtækið Abrika Pharmaceuticals Inc., sem sérhæfir sig í þróun og sölu forðalyfja og samheitalyfja sem erfið eru í þróun, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Heildarkaupverð er 181 milljónir evra, sem samsvarar 16,5 milljörðum króna, og þar af nema árangurstengdar greiðslur 96 millljónum evra, eða 8,7 milljörðum króna, sem eru til greiðslu á næstu þremur árum, segir Actavis

Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í byrjun nóvember að fyrirtækið myndi ljúka tveimur yfirtökum fyrir áramót. Í síðustu viku greindi Actavis frá kaupum á 51% hlut í rússneska lyfjafyrirtækinu Zdorovje fyrir 47 milljónir evra. Róbert Wessman sagði svo í samtali við FT Deutchland í vikunni að félagið myndi kaupa annað fyrirtæki fyrir jól.

?Við teljum kaupin á Abrika komi til með að styðja vel við vöxt okkar á Bandaríkjamarkaði sem er nú yfir þriðjungur af okkar heildartekjum. Kaupin eru einnig mikilvægt skref í að fjölga forðalyfjum í þróun og sölu og erum við nú komin í hóp leiðandi fyrirtækja á Bandaríkjamarkaði á þessu sviði. Við teljum góð vaxtartækifæri fyrir Actavis á sviði forðalyfja á næstu árum og væntum þess að markaðssetning lyfja Abrika muni styðji vel við lyfjaúrval okkar á markaðnum,? segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.