Lífeyrissjóður Verslunarmanna hefur aukið hlut sinn í VÍS um fimm prósentustig og á nú 9,82% hlut í félaginu, að því er kemur fram í tilkynningu. Eftir viðskiptin er sjóðurinn næst stærsti hluthafi félagsins á eftir Klakka ehf. Mikil velta hefur verið í kauphöllinni það sem af er degi og hafa hlutabréf í VÍS skipt um hendur fyrir um 1,9 milljarða króna.

Miðað við veltuna hafa ríflega 8% hlutafjár í félaginu skipt um hendur og er því líklegt að Klakki, sem átti fyrir helgi um 31% hlut í VÍS sé seljandinn. Það þýðir að fleiri en Lífeyrissjóður verslunarmanna hafa keypt hlut í félaginu.

Mikil velta hefur einnig verið með bréf í HB granda og Icelandair Group, en velta með bréf HB Granda nemur um 1,6 milljörðum króna og velta með bréf Icelandair um 800 milljónum króna.

Gengi bréfa VÍS hefur hækkað um 1,97% það sem af er degi, gengi bréfa HB Granda hefur hækkað um 1,50% og bréfa Icelandair Group um 0,84%