Húsasmiðjan hf. og Kaupfélag Héraðsbúa hafa náð samkomulagi um að sameina rekstur beggja félaganna á sviði byggingarvara undir merki Húsasmiðjunnar.

Í tilkynningu félaganna kemur fram að markmiðið með sameiningunni er aukin hagræðing í innkaupum og aukin hagkvæmni í rekstri af þeirri stærðargráðu sem núverandi gróska á Austurlandi krefst.

Í tengslum við sameininguna hafa félögin náð samkomulagi um byggingu nýrrar verslunar sem mun hýsa hinn sameinaða byggingarvörurekstur í 2500 m2 húsi í nýja miðbænum á Egilsstöðum. Hið nýja hús mun auk byggingarvöruverslunar hýsa nýja verslun Blómavals og nýja verslun Ískrafts, dótturfélags Húsasmiðjunnar sem sérhæfir sig í sölu almenns raflagnaefnis og sérhæfðs efnis til virkjana, rafveitna og álvera. Mun hið nýja verslunar-og þjónustuhúsnæði verða tilbúið fyrir árslok 2006. Byggingarvöruverslun KHB á Reyðarfirði mun einnig verða rekin undir nafni Húsasmiðjunnar til að þjóna sérstaklega atvinnustarfseminni í tengslum við nýtt álver við Reyðarfjörð.

Rekstur verslunarinnar verður í höndum Húsasmiðjunnar en bygging og eignarhald á fasteigninni verður í höndum Kaupfélags Héraðsbúa, sem auk þess á stóran hluta þess lands sem ætlað er undir nýjan miðbæ á Egilsstöðum sem ætlað er að þjóna uppbyggingunni á Austurlandi.

"Við teljum þennan samning þjóna hagsmunum svæðisins og um leið Kaupfélagsins mjög vel" sagði Gunnlaugur Aðalbjarnarson kaupfélagsstjóri Kaupfélags Héraðsbúa í tilkynningunni. ?Okkar hagsmunir felast í því að svæðið eflist og dafni og þar með hagur félaga KHB og íbúa svæðisins. Húsasmiðjan er stærsta fyrirtæki í sölu byggingarvara á landinu og auk þess í gegnum Ískraft einn stærsti aðili við þjónustu álvera á landinu. Við teljum mikinn hag í því að fá slíkt fyrirtæki í stóraukinn rekstur hér á svæðinu. Við lögðum einnig mikla áherslu á að Blómaval opnaði hér myndarlega verslun því við teljum það auðga mjög hið nýja miðbæjarsvæði. Þá höfum við samið við Húsasmiðjuna um sérkjör fyrir félagsmenn KHB. Okkar beinu hagsmunir eru fólgnir í því að stórverslunin er upphafið að stórfelldri uppbyggingu nýs miðbæjar á Egilsstöðum og þar höfum við mikilla langtímahagsmuna að gæta sem og allir íbúar hér" sagði Gunnlaugur Aðalbjarnarson.

"Fyrir Húsasmiðjuna er þetta rökrétt framhald af þeirri uppbyggingu á landsbyggðinni sem við höfum staðið að á síðastliðnum árum" sagði Steinn Logi Björnsson forstjóri Húsasmiðjunnar. ? Það er ekkert launungarmál að við teljum mjög mikil tækifæri liggja í markaðnum á Austurlandi, ekki bara vegna bygginga íbúðar-og iðnaðarhúsnæðis núna, heldur einnig til framtíðar vegna almennrar uppbyggingar og sérhæfðrar þjónustu við Álver og önnur iðnaðarfyrirtæki."

Rekstur byggingarvöruverslana Húsasmiðjunnar og Kaupfélags Héraðsbúa verða á einni hendi, undir merki Húsasmiðjunnar, frá og með 1. apríl n.k. en gert er ráð fyrir að starfsemin flytjist í hið nýja húsnæði fyrir lok ársins 2006.