General Motors sem nú er í gjaldþrotameðferð hefur kynnt bráðabirgða samkomulag um sölu á Hummer nafninu til kínversks fyrirtækis. Ætlunin Kínverjanna mun vera að framleiða Hummer áfram í verksmiðjum í Bandaríkjunum sem mun um leið tryggja um 3.000 fyrrum starfsmönnum GM vinnu.

Samkvæmt fréttum erlendra fjölmiðla hefur ekki verið gengið frá söluverðinu, en umrætt fyrirtæki heitir Tengzhong Heavy Industrial Machinery Company og er með höfuðstöðvar í Sichuan héraði í Kína.

Bankar hafa áður metið að verðmæti merkisins og eigna kunni að vera um 100 milljónir dollara miðað við staðgreiðslu auk óskilgreindra skuldbindinga.

Aljazeera fréttastofna vitnar í talsmann GM sem segir að Tengzhong hyggist ekki aðeins framleiða Hummer í hefðbundnum útgáfum, heldur einnig umhverfisvæna útgáfu af þessum kraftalega jeppa. Ætlun fyrirtækisins sé að selja Hummer um allan heim auk Kína.

Salan á Hummer þarf að fara í gegnum mikið formlegt ferli sem talið er að geti lokið á þriðja ársfjórðungi þessa árs. AFP news agency greinir frá yfirlýsingu Tengzhong og GM sem segir m.a. að kínverska fyrirtækið muni vilja halda í stjórnendateymi og starfsmenn Hummer og vilji semja við GM um framleiðslu ýmissa íhluta í bílana.