Zhang Yaocang, varaforseta kínverska olíurisans SINOPEC Group, greindi Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra frá því á fundi í Kína að hann hefði beðið olíurannsóknarmiðstöð fyrirtækisins að gera forkönnun á fyrirliggjandi gögnum um Drekasvæðið. Katrín hafði þá sagt honum frá djúpborunarverkefni og rannsóknum tengdum mögulegri olíuvinnslu á svæðinu. Í því samhengi vísaði Zhang Yaocang til langrar reynslu SINOPEC af jarðfræðirannsóknum og borunum á miklu dýpi í tengslum við olíuiðnað og samkvæmt fréttatilkynningu frá Iðnaðarráðuneytinu taldi hann áhugavert að fylgjast með djúpborunarverkefninu.

Í tengslum við ferð iðnaðarráðherra á heimssýninguna EXPO 2010 í Shanghæ nú í júní átti Katrín fundi með varaforseta  SINOPEC Group og forsvarsmönnum Shaanxi héraðs í Kína þar sem rætt var um frekara samstarf Íslendinga og Kínverja á sviði grænnar orku.

Greindi iðnaðarráðherra frá fimm ára áætlun

SINOPEC Group hefur átt samstarf við Geysi Green Energy um uppbyggingu hitaveitna í Kína og nýlega var undirritaður samningur um stofnun íslensk-kínversks jarðhitafélags í Peking. Af hálfu kínverja er mikill áhugi á frekar samstarfi enda stefnt að stóraukinni nýtingu jarðvarma. Zhang Yaocang sagði iðnaðarráðherra frá stórhuga áformum kínverskra stjórnvalda um hitaveituvæðingu í næstu fimm ára áætlun landsins, frá 2011 til 2015.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu, þar sem sagt er frá fundinum, kemur fram að markmiðið er að bæta við jarðvarmahitun í 30 milljón fermetra af húsnæði á tímabilinu. Þá stefna kínversk stjórnvöld á frekari þróun jarðvarmanýtingar, m.a. til raforkuframleiðslu á lághitasvæðum. Zhang lagði áherslu á mikilvægi ríkisstjórna við að styðja slíka þróun og nýsköpun í þessum geira. Þar gætu sameiginleg verkefni skipt miklu máli.

Ræddu nýjan rammasamning

Í Shaanxi héraði eru umfangmestu jarðvarmaframkvæmdirnar á vegum Shaanxi Green Energy Co. Ltd. Fyrirtækið er að tæpum helmingshluta í eigu Enex-Kína (Geysir Green og OR). Forsvarsmenn héraðsins, þeir Li Jinbing sem á sæti í framkvæmdastjórn flokksins í héraðinu og Zhuang Chanxing borgarstjóri í Xianyang, hafa nýverið heimsótt Ísland og kynnt sér jarðhitanýtingu Íslendinga. Á fundinum með iðnaðarráðherra var rætt um þau tækifæri sem felast í nýjum rammasamningi sem undirritaður var á Íslandi 9. júní s.l. og lýstu yfirvöld í Shaanxi fyrir iðnaðarráðherra áformum sínum um að fjórfalda umfang jarðhitanýtingar til húshitunar á næstu þremur árum.