Kísilver PCC á Bakka við Húsavík skilaði í fyrsta sinn rekstrarhagnaði í september síðastliðnum. Þetta kemur fram í uppgjöri þýsks móðurfélags PCC á Bakka, PCC SE, fyrir þriðja ársfjórðung, þar sem segir jafnframt að jákvæð teikn séu á lofti og útlit fyrir að þessi þróun muni halda áfram á næstunni.

Er batnandi rekstur kísilversins á Bakka sagður leika lykilhlutverk í að uppgjör þriðja fjórðungs kom betur út en árshlutauppgjörin þar á undan. Er rekstrarbatinn sagður skýrast af skarpri aukningu í eftirspurn eftir sílikoni og samdrætti í framleiðslu þess í Kína, sem skilað hafi hækkandi heimsmarkaðsverði á sílikoni. Á móti er bent á að verð á hráefnum á borð við kol og flutningskostnaður hafi farið hækkandi.

Viðskiptablaðið sagði frá því í september að leggja þurfi aukið fjármagn í rekstur PCC á Bakka.  Þá hafi fjárhagsleg endurskipulagning félagsins verið langt á veg komin.

Sjá einnig: PCC á Bakka þarf nýtt fé í reksturinn

Í lok júní á síðasta ári tilkynnti PCC að slökkt yrði á kísilverinu og um 80 manns sagt upp störfum vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Bilanir og rekstrarerfiðleikar höfðu þá sett svip á reksturinn frá gangsetningu í apríl árið 2018. Á meðan á lokuninni stóð var unnið að endurbótum á kísilverinu. Annar ofn kísilversins var gangsettur aftur í apríl síðastliðnum og sá seinni var settur af stað á ný í byrjun júlí.

Í ársreikningi PCC á Bakka fyrir árið 2020 sem undirritaður var í lok júní kemur fram að náðst hafi að gera nýja skammtímasamninga við marga af stærstu birgjum félagsins og viðræður standi yfir um samninga til lengri tíma. Tekist hafi að draga úr rekstrarkostnaði, sem bæti hag félagsins.

PCC SE á 86,5% hlut í kísilverinu á Bakka á móti 13,5% hlut Bakkastakks, fjárfestingafélags Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða. Bókfærðar eignir Bakkastakks hafa verið færðar niður um tæplega 8 milljarða króna á síðustu tveimur árum.