Kjalar Invest BV keypti í Alfesca fyrir 498 milljónir króna í gær, að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar, sem birtist í dag.

Í gær hækkaði gengi félagsins um 7,71% í viðskiptum sem nema 521 milljón króna. Það sem af er degi hefur gengi félagsins lækkað um 1,19%.

Kjalar er að stærstum hluta til í eigu Ólafs Ólafssonar fjárfestis og er ein stærsta eign félagsins 9,71% hlutur í Kaupþingi.

Samkvæmt upplýsingum úr hluthafaskrá er Kjalar Invest BV stærsti hluthafi Alfesca, með 34,14% hlut og Kaupþing er næst stærst, með 19,09% hlut.