Framleiðsla á kjöti í júní var minni en á sama tíma í fyrra. Munurinn er 2,3 prósentustig.

Frá þessu er greint á vef Bændablaðsins. Þar segir jafnframt að sala hafi verið 1,1% minni en í júní 2007.

Mest seldist af alifuglakjöti eða 648 tonn sem er 5,3% meira en á sama tíma í fyrra.

Samdráttur varð á framleiðslu á öðru kjöti.  4,4% samdráttur í svínakjöti, 3,1% í kindakjöti og 1,3% í nautgripakjöti.

Á vef Bændablaðsins segir að síðastliðna 12 mánuði hafi heildarkjötsala numið 25.166 tonnum sem er 3,6% meira en næstu tólf  mánuði á undan.

Talsvert var flutt inn af erlendu kjöti eða tæp 690 tonn.

281 tonn voru flutt inn af alifuglakjöti,  199 tonn svínakjöti og 198 tonn af nautgripakjöti.