H5N1 afbrigðið af fuglaflensu, sem ógnað getur fólki, hefur á síðustu dögum fundist í fuglum í sjö Evrópulöndum. Fuglaflensan hefur greinst í fuglum í Tyrklandi, Búlgaríu, Rúmeníu, Rússlandi, og nú síðast í svönum á Ítalíu og Grikklandi. Hræðsla við frekari útbreiðslu hefur í kjölfarið gripið um sig meðal Evrópubúa og og kjúklingabændur víða um Evrópu hafa tilkynnt um samdrátt í sölu á afurðum sínum.

Samtök kjúklingabænda í Grikklandi hafa varað við að snöggur samdráttur í kjúklingasölu nú muni reka minni kjúklingabúin úr rekstri. Gríski kjúklingaiðnaðurinn er ennþá að jafna sig eftir að 90% samdráttur varð í sölu á kjúklingakjöti í október á síðasta ári þegar gefin var út fölsk viðvörun um fuglaflensu. Grísku kjúklingabændurnir eru því mjög illa í stakk búnir til að taka aðra dýfu af þessu tagi.

Í Frakklandi hafa kjúklingabændur þungar áhyggjur af útbreiðslu fuglaflensu en sala kjúklinga þar í landi dróst saman um 20% síðastliðið haust vegna hræðslu almennings. Kjúklingasalan hefur nú dregist saman um 10% frá því í byrjun árs. Breskir kjúklingabændur hafa einnig tilkynnt um lélega sölu undanfarið en eftirspurn eftir kjúklingi hefur farið minnkandi um alla Evrópu. Víðast hvar í álfunni hafa kjúklingaframleiðendur dregið saman starfsemi og tilkynnt um minnkandi hagnað.

Fjármálaráðherra Austuríkis hefur ásamt öðrum evrópskum stjórnmálamönnum varað við þeim neikvæðu efnahagslegu áhrifum sem samdráttur af þessu tagi getur haft fyrir hagvöxt í Evrópu og hefur hvatt fólk til að halda ró sinni. Flest Evrópuríki eru ágætlega undirbúin til að eiga við faraldurinn en Evrópusambandið hefur nýlega innleitt reglugerð sem mun auðvelda stjórnvöldum að grípa í taumana með fyrirbyggjandi aðgerðum til að hindra frekari útrbreiðslu.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hafa verið staðfest 90 dauðsföll af völdum fuglaflensu í heiminum -- langflest þeirra í Suðaustur-Asíu.