Klaus Schmidt-Hebbel hefur verið skipaður yfirhagfræðingur OECD. Schmidt-Hebbel hefur starfað síðastliðin 12 ár sem yfirhagfræðngur seðlabankans í Chile en hann á ættir sínar að rækja frá Chile annars vegar og Þýskalandi hins vegar.

Schmidt-Hebbel starfaði fyrir Alþjóðabankann á árunum 1988 til 1996.

Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD sagði ráðningu Schmidt-Hebbel vera skref í að auka víðsýni og þekkingu innan samtakanna. „Hann reyndur og virtur hagfræðingur sem færi nýja sýn og nýjar hugmyndir í efnahagsþróun nútímanst,“ sagði Gurría um Schmidt-Hebbel.

Frá árinu 2004 hefur Schmidt-Hebbel einnig starfað sem prófessor í hagfræði við Kaþólska háskólann í Chile. Þá hefur hann starfað sem ráðgjafi fyrir ríkisstjórn Chile auk þess að vinna náið með alþjóðlegum fjármálastofnunum á borð við Alþjóðabankann, Þróunarbanka Asíu og fleiri.

Schmidt-Hebbel hefur einnig veitt fjölmörgum seðlabönkum ráðgjöf svo sem seðlabanka Nýja Sjálands, Perú, Argentínu, Egyptalands, Indónesíu og Mexíkó auk fjölmargra ríkisstjorna að því er fram kemur í tilkynningu frá OECD.

Schmidt-Hebbel, sem talar reiprennandi spænsku, ensku, þýsku, portúgölsku og frönsku tekur við stöðunni í september á þessu ári.