Evrópusambandið (ESB) er klofið í tvær fylkingar vegna Kósóvó og fer Spánn fyrir hópi sex ríkja – Búlgaríu, Kýpur, Grikkland, Rúmeníu og Slóvakíu – sem segjast ekki ætla að viðurkenna sjálfstæði héraðsins.

Afganistan var í gær fyrsta ríkið til þess að viðurkenna sjálfstæði Kósóvó. Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, sagði við fréttamenn í gær, skömmu áður en sérstakur neyðarfundur utanríkisráðherra aðildarríkja ESB hófst í Brüssel, að „spænsk stjórnvöld myndu ekki viðurkenna einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu Hasim Thaci, forsætisráðherra Kósóvó“ og sagði hana vera brot á alþjóðalögum.

Stjórnmálaskýrendur segja að yfirlýsing spænskra stjórnvalda hafi verið óvenjulega skýr og endurspegli þann ágreining sem er á milli annars vegar ríkja á borð við Frakkland, Þýskaland og Bretland, sem telja að lagalegur grundvöllur sé fyrir sjálfstæði Kósóvó, og hins vegar ríkja sem eru ekki reiðubúin að fallast á þær röksemdir.