*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 25. febrúar 2020 14:44

Kortavelta ferðamanna nam 231 milljarði

Í krónum talið var samdráttur í kortaveltu erlendra ferðamanna einungis 2,8% á síðasta ári. 30% aukning í opinberum gjöldum.

Ritstjórn

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna á Íslandi dróst saman um 2,8% milli ára, eða 6,7 milljarða króna, og nam hún 230,8 milljörðum króna árið 2019. Ef horft er framhjá veikingu gengis krónunnar nam lækkunin þó 11,2% að því er Hagsjá Landsbankans hefur tekið saman.

Það er þó minna en sem nemur 14,2% fækkun erlendra ferðamanna til landsins milli ára. Kortavelta í hótelgistingu dróst saman um 2,4% milli ára, en hún nam 58,3 milljörðum króna á síðasta ári. Lækkaði gistiverð jafnframt nokkuð milli ára. Gisting er alla jafna stærsti kostnaðarliðurinn í greiðslukortaveltunni, eða um fjórðungur, en þá er ekki tekið tillit til flugkostnaðarins sjálfs.

Úttekt reiðufjár dróst saman þriðja árið í röð í fyrra, eða um 15,5% á síðasta ári, en slík úttekt nam 3,5% af heildarkortaveltunni á síðasta ári. Hlutfallið var 15,7% árið 2012. Næst mestur samdráttur var í farþegaflutningaþjónustu, annarri en flugi, eða um 6,8%, og svo dróst velta í veitingaþjónustu saman um 6,4%.

Hins vegar var mest aukning í opinberum gjöldum, eða 28,3%, en þar af var mest aukning, eða 41,4% í söfnum, galleríum og dýragörðum, ef horft er til undirliða, en næst mest innan þessa liðs, eða 22,4% vegna ýmis konar viðburða eins og tónleika, leikhúsa og kvikmyndasýninga.

Næst mest aukning var svo í yfirliðnum í menningar-, afþreyingar- og tónstumdastarfsemi eða um 21,4%, en þar af jókst veltan um 10,4% í gjafa- og minjagripaverslun og 5,1% í annarri verslun, en mesti samdrátturinn var í tollfrjálsri verslun eða 4,3%, 2% samdráttur var svo í fataverslun og 0,7% í dagvöruverslun.

Stikkorð: ferðamenn kreditkort Kortavelta